Einbeittur námsmaður
Já, það er greinilega kominn próffiðringur í mig, allavega tekst mér á einhvern hátt að gera allt annað en að læra. Dæmi: í dag er ég til dæmis búin að þvo allan þvott sem ég gat bókstaflega fundið í húsinu. Síðan fór ég út að versla í matinn, já, á einhvern hátt tókst mér að vera ansi lengi í búðinni að skoða í hillur, hmmm, hvort skyldi ég kaupa venjulega mjólk eða léttmjólk. Fann líka rabbarbara í búðinni og auðvitað fannst mér tilvalið að versla hálft kíló af honum því ég ákvað í búðinni að í dag myndi ég búa til rabbarbarasultu! Fór heim, þvoði rabbarbarann, skellti í pott með sykri og bjó til sultu. En já, eitthvað varð nú að vera til á heimilinu til að borða með sultunni í kvöld þannig að ég ákvað að baka nokkrar vöfflur! Og síðan var nú alveg nauðsynlegt að horfa á endursýndan þátt af Frasier í sjónvarpinu, miklu mikilvægara en að læra. Og sjáið, ég er enn að koma mér undan lærdómnum, ég er að blogga! Kæru vinir og ættingjar, ef svo heppilega vildi til að þið ættuð leið til Írlands, þá á ég allavega sultu og fullt af hreinum handklæðum og rúmfötum!
Lengi lifi lærdómurinn!!!
Lengi lifi lærdómurinn!!!